Stranginn er 160 cm á breidd. Koddaverið á að vera fyrir kodda í stærðinni 50X 70 cm. Til að nýta efnið sem best þá byrjum við á að draga út efnið á stranganum og mælum 54 cm
Nú erum við komin með lengdina á efninu fyrir koddaverið. Þá er komið að því að brjóta inn fyrir faldinn 1 cm og svo aftur einn 1 cm
Gott að strauja fyrst 1 cm og brjóta yfir og strauja aftur. Setja síðan títiprjóna með c.a. 5 cm millibili.
Nú er komið að því að sauma faldinn niður.Gættu þess að sauma sem næst brúninni og loka vel.
Þá er komið að því að brjóta efnið saman. Réttan á móti réttunni. Önnur hliðin á að ná 69 cm og skilja þar með eftir um það bil 14 cm.
Næst brjótum við 14 cm bútinn yfir þannig að réttan á bútnum mætir röngunni.
Nú er bara eftir að sauma niður báðar hliðarnar á koddaverinu. Þá er saumað alveg frá toppi á bútnum og niður. Gott er að setja títiprjóna niður með c.a. 5cm millibili.
Þegar hliðarnar eru saumaðar niður er mikilvægt að saumavélarfóturinn sé við brún efnisins.
Þegar búið er að loka hliðunum (sauma beinan saum niður) þarf að sikksakka. Þá er saumavélafóturinn við brún beina saumsins þannig að saumurinn verður í jaðrinum.
Nú er koddaverið tilbúið og eingöngu eftir að snúa því við.
Nú er komið að því að hanna fallegan texta, setja mynd/ir eða annað sem ykkur dettur í hug á Koddaverið. Gangi ykkur vel!
Hægt er að nálgast leiðbeiningar með Design Space fyrir Cricut hér á vefnum